LOGO HSA nytt

Meðhöndlun þunglyndis og kvíða nauðsynlegur hluti offitumeðferðar

Á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands/FSN hefur frá byrjun ársins 2007 verið starfrækt þverfagleg hópmeðferð vegna offitu með tveggja ára eftirfylgd. Frá upphafi var stefnt að því að halda vel utan um gögn og mælingar sem gerðar voru á hópunum. Gagnagrunnur í exelskjali var til hliðar við aðrar skráningar sem venjulega eru gerðar. 
Þessi gagnagrunnur hefur verið gagnlegur fyrir marga rannsakendur og hafa nokkur lokaverkefni og stærri verkefni verið unnin úr honum. Árið 2012 fékk Bjarni Kristinn Gunnarsson aðgang að gagnagrunninum og notaðist við hann í cand psychritgerð sinni. Í framhaldi af því var skrifuð grein sem birtist í Læknablaðinu 2016 og fyrirlestrar haldnir á nokkrum stöðum um efnið, þ.á.m. á læknaþingi og á Vísinda- og fræðadegi HSA. Þess má og geta að Bjarni fékk nýlega boð frá ritstjórn Journal of Family Medicine and Disease Prevention um að birta greinina í blaðinu. Unnið er að því að koma greininni í viðeigandi form. 

Greinin:
Áhrif þverfaglegrar offitumeðferðar á líkamsþyngd og andlega líðan  til lengri og skemmri tíma​. Höfundar: Bjarni Kristinn Gunnarsson sálfræðingur, Ingunn Hansdóttir sálfræðingur, Erla Björnsdóttir sálfræðingur, Erla Björg Birgisdóttir sálfræðingur, Anna Þóra Árnadóttir sjúkraþjálfari, Björn Magnússon læknir.
Markmið rannsóknarinnar var að meta skammtíma- og langtímaávinning þverfaglegrar offitumeðferðar ásamt því að bera saman árangur þeirra sem fóru í hjáveituaðgerð og hinna sem ekki fóru í slíka aðgerð. Þátttakendur voru 100 sjúklingar sem höfðu lokið fjögurra vikna offitumeðferð á FSN. Þátttakendur léttust marktækt auk þess sem andleg líðan og lífsgæði bötnuðu eftir offitumeðferð og hélst árangur til lengri tíma.

Ályktun:
Þátttakendur léttust til lengri tíma hvort sem þeir fóru í hjáveituaðgerð eða ekki. Niðurstöður benda til þess að leggja þurfi meiri áherslu á meðhöndlun þunglyndis og kvíða sem hluta af offitumeðferð, einkum í eftirfylgd.
Vonandi leggur sú niðurstaða lóð á vogarskálar ákalls til heilbrigðisyfirvalda eftir aukinni sálfræði- og geðlæknisþjónustu innan Austurlandsfjórðungs.
Sbr. ofanritað verður svo seint ofmetið að vanda alla skráningu og halda vel utan um öll gögn og mælingar sem síðar geta orðið mikilvægur grunnur rannsókna og árangursmats til lengri og skemmri tíma.

Höf. Anna Þóra Árnadóttir, deildarstjóri endurhæfingardeildar Umdæmissjúkrahúss Austurlands/FSN í Neskaupstað (júní 2016).

Annathoraarnadottir  

(ljósm.ES)

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is