LOGO HSA nytt

Móttaka hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu

Logo HSAÍ rúmt ár hafa hjúkrunarfræðingar í heilsugæslunni á Egilsstöðum haft það hlutverk að forgangsraða þeim skjólstæðingum sem þurfa þjónustu heilsugæslunnar samdægurs. Tilgangur þessarar þjónustu er að hver skjólstæðingur sem leitar á heilsugæslustöðina fái þjónustu sem þörf er á hverju sinni. Skjólstæðingar hringja á heilsugæslustöðina að morgni og óska eftir að fá að hitta heilbrigðisstarfsmann, oftast lækni. Móttökuritarar skrá viðkomandi á símalista hjúkrunarfræðingsins. Hjúkrunarfræðingurinn hringir síðan út í fólk og kannar hvert vandamálið er. Í sumum tilfellum er símtal nóg til aðstoða viðkomandi. Hjúkrunarfræðingur metur hvort ástandið er þannig að hann þurfi að komast tafarlaust til læknis, eða ef vafi er á þá býður hjúkrunarfræðingurinn honum tíma hjá sér og skoðar hann og metur eftir það hvort viðkomandi þurfi frekari þjónustu heilsugæslunnar eða ekki.

Þau þjónustuúrræði sem eru í boði eru að fá símaráðgjöf, bóka viðkomandi í næsta lausa tíma hjá lækni ef erindið má bíða, skoðun og mat hjúkrunarfræðings eða sjúkraþjálfara, koma á vakt læknis eða vera skráður á flýtivakt læknis. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og álag á móttökuritara og lækna hefur minnkað við þetta, auk þess sem að sjálfsögðu er aðalatriðið að þeir skjólstæðingar sem þurfa þjónustu heilbrigðisstarfsmanns fá þjónustu við hæfi.
Nú í haust stefnir HSA á að byrja með samskonar þjónustu í Fjarðabyggð. Mönnun á heilsugæslunni hefur verið aukin vegna verkefnisins. Verið er að skipuleggja þjálfun hjúkrunarfræðinga í líkamsmati til að auka hæfni þeirra og öryggi þjónustunnar.

Kynning til almennings þarf að fara fram, því hingað til hafa læknar að mestu sinnt þessari gerð þjónustu. Við þurfum að auka þekkingu almennings á þeim leiðum sem heilsugæslan getur boðið upp á og auka fjölbreytni fagaðila í móttöku heilsugæslu almennt.
Þetta er spennandi verkefni sem ætti að auka ánægju íbúa og tryggja þeim skjóta þjónustu á viðeigandi þjónustustigi.

Nína Hrönn Gunnarsdóttir,
framkvæmdastjóri hjúkrunar HSA.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is