LOGO HSA nytt

Brautryðjendastarf í þágu bættrar þjónustu

Guðbjörg Björnsdóttir deildarstjóri heilsugæslunnar á Egilsstöðum skrifar:

Á heilsugæslunni á Egilsstöðum starfar samheldinn hópur heilbrigðisstarfsmanna sem hefur mikinn metnað til að bæta þjónustu og verklag. Langar mig að kynna fyrir ykkur nokkrar úrbætur sem við höfum unnið að undanfarin ár. Á heilsugæslunni á Egilsstöðum starfar samheldinn hópur heilbrigðis-starfsmanna sem hefur mikinn metnað til að bæta þjónustu og verklag. Langar mig að kynna fyrir ykkur nokkrar úrbætur sem við höfum unnið að undanfarin ár. Má þar helst nefna;- öfluga heimahjúkrun,- sjúkraþjálfara sem fyrsta móttökuaðila í heilsugæslu,- bætta bráðaþjónustu bæði á dagvinnutíma og utan hans, - hjúkrunarfræðinga í framlínu í greiningu vandamála og móttöku skjólstæðinga,- notkun SBAR sem tryggir öruggari samskipti og upplýsingamiðlun,- verklegar æfingar sem eru vikulegur partur af starfssemi heilsugæslunnar. 

Öflug heimahjúkrun
Heimahjúkrun er hluti af þjónustu heilsugæslunnar á Egilsstöðum og er þar mikilvægur hlekkur í góðri þjónustu okkar. Hryggjarstykki heimahjúkrunar eru öflugir sjúkraliðar ásamt hjúkrunarfræðingi sem hefur yfirumsjón með skjólstæðingum og sinnir þar mikilvægu hlutverki. Þjónusta heimahjúkunar er veitt alla daga ársins frá morgni til kvölds. Markmið okkar er að veita sem besta þjónustu sem stuðlar að því að einstaklingar geti búið heima sem lengst, en það rímar við stefnu stjórnvalda í þessum efnum. 

Sjúkraþjálfari í heilsugæslu
Fyrir tveimur árum ákvað HSA að stíga fram og sýna metnaðarfullt frumkvæði og ráða sjúkraþjálfara sem fyrsta móttökuaðila í heilsugæslu. Þóra Elín Einarsdóttir sjúkraþjálfari var ráðin og er með móttöku á heilsugæslunni á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð. Með þessu sýnir HSA hversu framsýn stofnunin er. Má geta þess að nýverið fékk Þóra hvatningarverðlaun á Degi sjúkraþjálfunar.

Bætt bráðaþjónusta
Í nokkur ár hefur hjúkrunarfræðingur með réttindi í sjúkraflutningum starfað á heilsugæslunni og í sjúkraflutningum, bæði á dagvakt og bakvakt. Í apríl 2017 bættust svo þrír hjúkrunarfræðingar við hópinn. Má segja að með þessu hafi menntunarstig hópsins styrkst töluvert en einnig eru fjórir einstaklingar með grunnréttindi í sjúkraflutningum. Reynsla okkar af þessu fyrirkomulagi er mjög góð og er vaxandi á Íslandi að hjúkrunarfræðingar afli sér þessara réttinda til að vera betur í stakk búnir að sinna landsbyggðarhjúkrun. Einnig var mönnun á dagvakt breytt, en áður var einn á vakt og þurfti  ef til útkalls kom að kalla út. Frá sumarbyrjun 2016 eru alltaf tveir á dagvakt, hjúkrunarfræðingur með sjúkraflutningaréttindi og sjúkraflutningamaður. Með þessu hefur bráðaþjónusta HSA á Egilsstöðum verið bætt og viðbragðstími útkalla á dagvinnutíma styst til muna. Tel ég þetta vera eðlilega og sjálfsagða þróun þar sem utanspítalaþjónusta er fyrsta heilbrigðisþjónusta sem veitt er á vettvangi alvarlegra slysa og veikinda. Við megum ekki gefa okkur afslátt af þessari þjónustu því hún getur skilið á milli lífs og dauða. 

Hjúkrunarfræðingar í framlínunni
Frá ársbyrjun 2016 hafa hjúkrunarfræðingar á Egilsstöðum flokkað samdægurserindi skjólstæðinga heilsugæslunnar og komið þeim í réttan farveg. Hjúkrunarfræðingur tekur símtöl sem berast á heilsugæsluna þar sem óskað er eftir þjónustu og greinir erindið, veitir viðeigandi heilbrigðisþjónustu, metur þörf fyrir frekari þjónustu og vísar áfram á aðra heilbrigðisstarfsmenn ef þarf. Sami hjúkrunarfræðingur er skilgreindur á vakt hússins og sinnir símtölum og bráðum erindum. 
SBARNú í haust var ákveðið að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður heilsugæslunnar á Egilsstöðum myndu tileinka sér að nota samskiptakerfið SBAR sem þróað var til að gera samskipti og upplýsingagjöf markvissari og öruggari. Reynsla mín af SBAR er mjög jákvæð. Mér finnst einfaldara að gera samskiptseðil með SBAR. Upplýsingatakan verður mun markvissari og miðlun upplýsinga nákvæmari og öruggari. Hjá HSA var nýlega haldið námskeið fyrir alla starfsmenn þar sem SBAR var kynnt. Sá ég þar enn fleiri möguleika á að nota SBAR t.d. í heimahjúkrun og sjúkraflutningum. 

Innleiðing verklegra æfinga
Að lokum langar mig að segja ykkur frá því að í nokkur ár hefur draumur minn verið að koma á einhverskonar verklegum æfingum hjá heilbrigðisstarfsfólki heilsugæslunnar á Egilsstöðum en ekki tekist að koma því í gang. Í samvinnu við Berglindi Andrésdóttur hjúkrunarfræðing, sem bættist í hóp okkar árið 2016, tókst að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd nú í ársbyrjun. Æfingarnar fara fram vikulega á þriðjudagsmorgnum kl. 8:30 og standa í tæpar 30 mínútur. Mikil ánægja er með þessar æfingar og eru þær komar til að vera hér á heilsugæslunni á Egilsstöðum og verða kynntar á Vísinda- og fræðadegi HSA í maí n.k. 

Guðbjörg Björnsdóttir

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is