LOGO HSA nytt

TILRAUNAVERKEFNI UM ÞJÓNUSTU SÉRGREINALÆKNA HJÁ HSA

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) undirritaði hinn 11. apríl sl. tímamótasamninga við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala um þjónustu bæklunarlækna og þvagfæraskurðlækna á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands. Eru bundnar vonir við að á þennan hátt megi efla til muna sérfræðiþjónustu í heimabyggð til hagsmuna fyrir íbúa og jafnframt að geri megi á sama hátt samninga um frekari sérfræðiþjónustu á Austurlandi í framtíðinni.

Verði fyrirmynd víðar um landið

Heilbrigðisráðuneytið hefur veitt HSA 15 milljóna króna viðbótarframlag til að standa straum af samningunum í eitt ár.
Um er að ræða tilraunaverkefni og er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í frétt á vef ráðuneytisins að lagt sé upp með að samningarnir geti orðið fyrirmynd að sambærilegum samningum um allt land til að jafna aðgengi landsmanna að margvíslegri þjónustu sérgreinalækna. Fáir sérgreinalæknar starfi utan höfuðborgarsvæðisins og hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni reynt að mæta þörf fyrir þjónustu þeirra með verktakasamningum við einstaka lækna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst stofnununum kostnaðarsamt og hvorki vel til þess fallið að tryggja þjónustu sérgreinalækna í samræmi við þjónustuþörf á viðkomandi svæði né mikilvæga samfellu í þjónustu við sjúklinga.  
Segir jafnframt að á vegum heilbrigðisráðuneytisins sé unnið að því að greina hvaða þjónustu er æskilegt að veita á heilbrigðisstofnunum um land allt og hvernig megi best tryggja aðgengi sjúklinga að þeirri þjónustu. Gert sé ráð fyrir að hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri verði skilgreind þannig að það verði liður í þjónustu þeirra að sjá heilbrigðisstofnunum landsins fyrir þjónustu sérgreinalækna á grundvelli samvinnu og samninga.

20190411 150905

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá undirritun samnings: F.v. Bjarki Örvar Auðbergsson bæklunarskurðlæknir, Jónas Logi Franklín forstöðulæknir og Guðjón Hauksson forstjóri HSA.

20190411 150923

 

 

 

 

 

 

 

 

 Frá undirritun samnings: Guðjón Hauksson forstjóri HSA og Bjarni Smári Jónasson forstjóri SAk.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is