LOGO HSA nytt

Hreyfing gerir gæfumuninn

Dagleg hreyfing hefur margvíslegt gildi, bæði fyrir líkamlega og andlega velferð, og ásamt hollu mataræði er hún lykilatriði ef ætlunin er að sporna við aukinni offitu í framtíðinni. Reglubundin hreyfing eykur þol, styrkir líkamann og örvar starfsemi hans. Í manneldismarkmiðum er mælt með daglegri hreyfingu í 45-60 mínútur. Ýmsum óar líklega við svo mikilli hreyfingu dag hvern, en þá verður að hafa í huga að hér er ekki bara verið að ræða um stranga líkamsþjálfun, leikfimi eða aðra heilsurækt, heldur einnig alla meðalröska hreyfingu yfir daginn, til dæmis göngu. Hreyfingin þarf heldur ekki að vera samfelld í 45 mínútur á hverjum degi heldur getur verið um að ræða nokkur styttri tímabil, t.d. göngutúr í hádegi og sundferð síðdegis.

Heilsufarslegur ávinningur hreyfingar er mikill. Sem dæmi má nefna:

  • Sterkari hjartavöðvi
  • Blóðþrýstingur lækkar og helst jafnari
  • Aukið streituþol
  • Stjórnun blóðsykurs í meira jafnvægi
  • Áhrif á blóðfitu, einkum HDL (góða kólesterólið). Með reglubundinnni hreyfingu getur gildi HDL aukist.
  • Líkamsþyngd. Aukin hreyfing leiðir af sér aukinn vöðvamassa sem leiðir af sér aukna fitubrennslu.
  • Forvörn gegn sjúkdómum s.s. beinþynningu, ýmsum tegundum krabbameina, liðagigt og fleiru.
  • Andleg vellíðan

Það þekktist varla áður að fólk hreyfði sig bara til að hreyfa sig enda voru lífshættir öðruvísi. Fólk hreyfði sig hins vegar meira í tengslum við athafnir daglegs lífs en minna fyrir utan vinnutíma. Nú á tímum krefjast athafnir daglegs lífs sífellt minni hreyfingar og fleiri störf eru kyrrsetustörf. Það þýðir að ástundun reglubundinnar hreyfingar fyrir utan vinnutíma er enn mikilvægari nú en áður.

Hvernig hreyfing?

Aðalmálið er að fólk velji sér hreyfingu sem það hefur gaman af og hentar því. Taka verður tillit til aldurs og líkamlegs ástands. Mikilvægt er einnig að fara rólega af stað. Þannig gæti verið nóg að byrja með 10-15 mínútna göngu daglega og bæta svo við sig tíma og hraða smátt og smátt.


Heimild: Lýðheilsustöð.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is