LOGO HSA nytt

Eru sýklalyf að verða gagnslaus?

Fyrsta sýklalyfið kom fram fyrir um 70 árum og olli byltingu í læknisfræði. Sjúkdómar eins og lungnabólga sem jafngilti oft dauðadómi urðu nánast auðlæknanlegir. Allar götur síðan hafa sýklalyf verið notuð gegn ýmsum sýkingum og jafnvel bara til öryggis. Kunnátta dagsins í dag sýnir að stór hluti sýklalyfjanotkunar síðustu áratuga var óþarfur. En er það ekki í lagi, þarf ekki að drepa sýklana svo við verðum frísk aftur? Lítum nánar á það.

Hvað veldur sýkingum og hvað eru sýklalyf ?
Kvefið, algengasta sýking sem á okkur herjar, orsakast af veirum. Til eru um 200 mismunandi kvefveirur, svo lengi má næla sér í nýtt afbrigði, enda eru > 90% sýkinga í öndunarfærum orsakaðar af veirum. Margar bakteríur eru í innyflum okkar eða á yfirborði líkamns án þess að gera okkur veik og kallast eðlileg bakteríuflóra. Sýklalyf er samheiti yfir stóran hóp lyfja og penicillín er eitt þeirra. Sýklalyf virka á bakteríur, drepa þær eða gera skaðlausar, en hafa engin áhrif á veirur og því ekki á kvef. Oft heyrist sagt „ég lagast aldrei af kvefi nema að fá penicillin“ og við erum líka margir læknarnir sem látum bjóða okkur upp í þann dans og afgreiðum lyfin. Gott og vel, en þarf þá ekki alltaf að nota sýklalyf gegn bakteríusýkingu? Svarið er nei. Sem dæmi má nefna vægar miðeyrnabólgur, skútabólgur ( ennis- og kinnholubóglur ), berkjubólgur ( bronkitis ) o.fl. loftvegasýkingar sem orsakast ýmist af veirum eða bakteríum og læknast í báðum tilfellum oftast án sýklalyfja. Sýklalyf hafa verið mikið notuð til meðferðar á eyrnabólgu hjá börnum. Eyrnabólgum valda ýmist bakteríur eða veirur og oft(ast) þarf ekki sýklalyf til að lækna þær. Þó er ráðlögð sýklalyfjameðferð hjá yngstu börnunum vegna tíðari fylgikvilla hjá þeim.

Hvað er slæmt við að nota sýklalyf að óþörfu?
Það er einkum tvennt. Annars vegar aukaverkanir lyfjanna, algengast niðurgangur og útbrot. Niðurgangurinn oftast vegna þess að lyfin skaða eðlilega bakteríuflóru líkamans.

Hins vegar myndun ónæmra baktería. Bakteríur sem útsettar eru fyrir sýklalyfi geta lært að þola lyfið, orðið ónæmar, sumar fjölónæmar ( þola mörg sýklalyf ). Tilkoma ónæmra baktería og dreifing þeirra vex með aukinni notkun sýklalyfja. Óþörf notkun lyfjanna eykur mjög þessa hættu og það eru börn sem nota mest allra af sýklalyfjum, ekki síst við eyrnabólgum. Ónæmar bakteríur valda því að á seinni árum þarf stundum að leggja inn t.d. börn með eyrnabólgu og gefa þeim kröftug sýklalyf í æð. Notkun sýklalyfja er hlutfallslega hvað mest á höfuðborgarsvæðinu og þar eru í dag upp undir 40% af algengustu eyrnabólgu-bakteríum ónæmar fyrir penicillíni og helstu varalyfjum þess. Sýklalyf hafa bjargað mörgum lífum og eru líka forsendur ákveðinnar sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu s.s. flókinna skurðaðgerða, líffæraflutnings og umönnunar fyrirbura. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Íslendingar nota mikið af sýklalyfjum, raunar mest allra Norðurlandaþjóða. Stór hluti notkunarinnar er óþarfur og rannsóknir, m.a. á Austurlandi hafa sýnt sterk tengsl milli sýklalyfjanotkunar og dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería. Ástandið er enn verra í suður-Evrópu þar sem fólk getur keypt sýklalyf í lausasölu án lyfseðils. Tilkoma ónæmra baktería er ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess að sl. 1-2 áratugi hafa fá ný sýklalyf komið á markaðinn. Víða um heim eru sýklalyf notuð í stórum stíl við annað en að lækna fólk. Þeim er t.d. ausið í kjúklinga, svín o.fl. dýr til að fyrirbyggja sýkingar og auk þess notuð til að lækna veik dýr.

Hvað er til ráða ?
Myndun ónæmra baktería er alþjóðlegt vandamál sem þýðir að sumar „venjulegar“ sýkingar eru illviðráðanlegar því algeng sýklalyf virka ekki á þær. Við úrlausn þessa vanda þarf samstillt átak margra, ekki síst heilbrigðisgeirans, landbúnaðarins, stjórnvalda og almennings. Greinarkorni þessu er ætlað að hvetja almenning til að vera fyrir sína hönd gagnrýninn á notkun sýklalyfja. Það er gert í krafti þess að á sínum tíma náðist umtalsverður árangur við að minnka sýklalyfjanotkun á eyrnabólgur barna í Egilsstaðalæknishéraði. Það mátti ekki síst þakka áhugasömum foreldrum sem vildu hlífa börnum sínum við óþarfri notkun lyfjanna. Ónæmiskerfið læknar oftast kvef, flensur, pestir og ýmsar vægar bakteríusýkingar og það án sýklalyfja. Þá fáum við hvorki aukaverkanir af lyfjunum né stuðlum að myndun og dreifingu ónæmra baktería. Spyrjið lækninn hvort þið ekki komist af án sýklalyfja frekar en að þrýsta á um að fá þau. Alltaf má meta ástandið að nýju ef þörf krefur. Minnkuð notkun sýklalyfja gæti ráðið úrslitum um það hvort lungnabólga verður áfram læknanleg með sýklalyfjum eða hvort hún í versta falli verður aftur sá bráðdrepandi sjúkdómur sem hún var fyrir bara einum mannsaldri.

Evrópusambandið hefur gert 18. nóvember að árlegum sýklalyfjadegi til að draga fram ofangreindan vanda og ýta undir umræðu um lausn hans. Áhugasömum má benda á http://ecdc.europa.eu/en/EAAD/Pages/Home.aspx/

 

Höfundur: Pétur Heimisson heimilislæknir og framkvæmdastjóri lækninga HSA.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. nóv. 2011

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is