LOGO HSA nytt

Skaðsemi tóbaks

Það er vitað mál að tóbaksnotkun er langstærsta orsök sjúkdóma og ótímabærs dauða sem hægt væri að koma í veg fyrir. Árlega deyr fleira fólk á Íslandi af völdum reykinga en af völdum ólöglegra fíkniefna, áfengis, umferðarslysa, morða, sjálfsmorða, eldsvoða og alnæmis samanlagt.
Reykingar hafa margvísleg skaðleg áhrif á heilsuna. Í tóbaksreyk eru meira en 4000 efnasambönd, þar af 40 sem geta valdið krabbameini. Reykingafólk er í aukinni hættu að fá krabbamein eins og krabbamein í lungum, munni, hálsi og er líka líklegra til að fá annars konar krabbamein s.s. í nýrum, milta, leghálsi og þvagblöðru.

Hvernig er upplifun lungnaþembusjúklinga? Lítil tilraun.
Reykingar geta líka valdið langvinnum sjúkdómum þar á meðal lungnaþembu. Lungnaþemba er langvinnur sjúkdómur sem verður vegna skemmda á lungnablöðrum. Lungnablöðrurnar stækka og veggir þeirra missa sveigjanleika sinn. Færri lungnablöðrur eru færar um að gegna hlutverki loftskipta og loftflæði um lungun er lélegra. Lungnablöðrurnar eru að hluta til fullar af gömlu súrefnissnauðu lofti sem veldur því að öndun verður erfið. Til að fá tilfinningu fyrir upplifun lungnaþembusjúklinga er best að fá sér örmjótt rör og anda í gegnum það í 5 mínútur, ekki þægileg upplifun það!

Áhrif tóbaks á kólesteról, útlit og fleira og fleira....
Sígarettureykingar valda æðaherpingi í húð en æðavíkkun í vöðvum. Hjartsláttur eykst, súrefnisþörf einnig og blóðþrýstingur hækkar. Fitusýrumagn í blóði eykst og um leið hættan á blóðtappamyndun því fita safnast inn á æðar. Afleiðingin er oft sú að blóðflæði til útlima minnkar og getur það leitt til missi útlima. Reykingar hafa bein áhrif á kólesteról í blóði. Reykingar lækka magn HDL kólesteróls í blóði, góða kólesterólsins svo að hækkun verður á kólesteróli. Sígarettureykingar hafa enn fremur mikil áhrif á útlit þess sem reykir. Tennur og fingur gulna, andremma gerir vart við sig, öldrun verður hraðari og litarháttur húðar breytist. Reykingar hafa einnig verið taldar hafa áhrif á kyngetu karlmanna. Til eru dæmi um að karlar hafi orðið getulausir vegna reykinga.
Þetta er allt það sem kannski flestir hafa heyrt einhvern tímann en það er ýmislegt annað sem er fróðlegt að vita um skaðsemi reykinga. Eitt af því er að margir tala um er hættan á að fitna ef þeir hætti að reykja og það valdi nú ekki minni heilsufarsvandamálum. Það þykir þó sannað að 20 sígarettur á dag skaða heilsuna meira en 45 kg yfir kjörþyngd.
Tíðaverkir eru minni hjá konum sem reykja ekki. Fleira sem snýr að konum er að breytingaskeiðið byrjar fyrr hjá konum sem reykja og líkur á beinþynningu aukast verulega. Beinin styrkjast þegar reykingum er hins vegar hætt.
Reykingar hafa einnig áhrif á getu líkamans til að jafna sig á áföllum. Þannig eru sár og beinbrot lengur að gróa hjá reykingamönnum og árangur eftir lið- eða liðbanda-aðgerðir er minni hjá reykingafólki. Á sama hátt hafa reykingar þau áhrif að skerða blóðflæði til vöðva sem veldur því t.d. að íþróttamenn sem reykja eru í aukinni hættu á að verða fyrir meiðslum.

En... það er ekki allt tóbak reykt.
Það er til neftóbak og munntóbak líka og því fylgir enginn reykur, er það þá ekki betra? Því er fljótsvarað að reyklaust er ekki skaðlaust. Í munntóbaki eru 28 krabbameinsvaldandi efnasambönd og það er ljóst að einungis 37% þeirra sem fá krabbamein í munn eru enn á lífi 5 árum seinna. Þessi krabbameinsvaldandi efni, eru til staðar í mun meira magni í munntóbaki og sá sem notar 10 grömm af munntóbaki á dag fær allt að þrefalt meira af krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir tuttugu sígrettur á dag. Munntóbak veldur skemmdum á slímhúð, gómur rýrnar, tannlos verður og allt geta þetta verið varanlegar skemmdir. Munntóbak inniheldur allt að ferfalt meira nikótín en sígarettur og verður því fíkn í það mikil og talin meiri en ef um reyktóbak er að ræða.

Tóbaksframleiðendur svífast einskis í að endurnýja neysluhóp sinn.
Sorgleg staðreynd er sú að tóbaksframleiðendur hafa lagt sig fram við að auka neyslu og þar með eftirspurn eftir reyklausu tóbaki og beina þá spjótum sínum að ungum neytendum. Þannig hefur notkun munntóbaks rúmlega þrefaldast á síðustu þrjátíu árum og eru nú u.þ.b. 5.5 milljónir Bandaríkjamanna daglegir neytendur. Aukning í aldurshópnum 17-19 ára hefur hins vegar fimmtánfaldast á sama tímabili sem er mikið áhyggjuefni. Talið er að meginástæða þess að notkunin eykst svona hratt meðal ungs fólks séu m.a. þær að þetta þyki ,,töff” meðal ungra karlmanna og að íþróttamenn eru oft fyrirmyndirnar í munntóbaksneyslu. Norskir vísindamenn hafa sýnt fram á að munntóbaksnotkun eykur verulega hættuna á alvarlegum vöðvaskaða hjá fólki í strangri þjálfun. Að þessu leyti er munntóbak verra en reykingar fyrir íþróttamenn þó að reykingar séu að öllu jöfnu skaðlegri. Ástæðan er sú að munntóbak veldur stöðugri nikótínertingu í æðakerfinu sem dregur úr blóðflæði til vöðvanna.
Ef þú notar tóbak og hefur áhuga á að hætta, eða fá nánari upplýsingar, leitaðu þá á þína heilsugæslustöð.

 

Heimild: Lýðheilsustöð og Ráðgjöf í reykbindindum.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is