LOGO HSA nytt

Góður starfsandi er ómetanlegur

Haustið 2013 fékk HSA Eyþór Eðvarðsson vinnusálfræðing og afreksmann til að halda námskeið (Hamingja, mórall, vinnugleði & helvíti) fyrir starfsfólk stofnunarinnar. Námskeiðin voru haldin í fjögur skipti, þóttu takast vel og voru ágætlega sótt. Margt af því sem Eyþór fjallaði um á námskeiðinu hreyfði við fólki og hefur vonandi sáð fræjum jákvæðni og bættrar liðsheildar innan HSA.

Samstarf á vinnustöðum ætti auðvitað að geta gengið frábærlega því allir vilja að samskiptin séu góð, að verk séu vel og rétt unnin, vera stoltir af eigin verkum og svo mætti lengi telja. En það er ekkert sjálfgefið og bara sú staðreynd að 48% skráðra sambúða endar með skilnaði - og þar er byrjað með sterkar yfirlýsingar, tilfinningar og ætlanir - gefur vísbendingu um að oft fari samstarf á annan veg en ætlað er“ segir Eyþór.

Hann telur vinnustaði geta gert fjölmargt til að stuðla að og efla starfsánægju. „Ein leið er að vera vakandi yfir því hvernig starfsandinn og starfsánægjan er, t.d. með því að hafa regluleg starfsmannasamtöl, gera viðhorfskannanir á starfsandanum, halda starfsdaga og vinnufundi og efla stjórnendur í að sinna sínu starfi. Síðan að vera með einhverjar aðgerðir sem miða að því að efla og styrkja vinnustaðinn, eins og t.d. að styrkja stjórnendur í stjórnunarhlutverkinu þannig að þeir séu klárir í að taka á þeim málum sem koma upp og vinna með þau. Einnig er mikilvægt að stjórnendur séu jákvæðir gagnvart aðgerðum sem styrkja andann eins og að hafa skemmtinefnd sem stendur fyrir reglulegum uppákomum sem létta andann, halda árshátíðir, vera með föstudagskaffi, tiltektardag o.fl.“

Lífsins kúnst
Starfsandinn er ekki eingöngu undir vinnustaðnum kominn. Hver og einn starfsmaður þarf að leggja sitt að mörkum til að efla starfsánægjuna. Eyþór telur að ef hann ætti að nefna eiginleika sem starfsfólk ætti að tileinka sér í auknu mæli til að efla starfsánægjuna þá er það að vera jákvæður og uppbyggilegur.
„Það er ekki við því að búast að allir séu sáttir við allt sem er gert og því er mikilvægt að geta umborið. Það er lífsins kúnst að kunna að vera óánægður, kunna að gagnrýna, leggja til lausnir og virða ólíkar skoðanir. Þannig eiginleikar eru ómetanlegir“ segir Eyþór.

Hvað veldur vondum móral?
„Margt getur valdið slæmum starfsmóral. Það er gagnlegt að greina á milli starfsánægju, sem varðar ánægju einstaklings í starfi, og starfsanda, sem varðar ánægju fólks með það hvernig samskiptin og stemningin er á vinnustað. Starfsandi og starfsánægja hafa mikil áhrif hvort á annað en eru samt tvö fyrirbæri. Algengar ástæður þess að fólk er ekki sátt í starfi er að það er óöruggt með sitt starf, aðbúnaður er ekki góður, álag mikið, upplýsingar takmarkaðar, óánægja er með breytingar, fólk upplifir stöðnun í starfi, verkefnin eru ekki nógu krefjandi, of flókin eða of mörg, einhæfni o.s.frv. Algengar ástæður fyrir lélegum starfsanda geta t.d. verið einstaklingar sem eru óánægðir og smita út frá sér, neikvæð umræða á vinnustað, neikvæð ímynd vinnustaðar, stefnuleysi og áhugaleysi stjórnenda, ekki tekið á málum sem þarf að taka á, einelti, baktal o.fl. Listinn getur verið langur,“ segir Eyþór sem segir að það sé ekki óyfirstíganlegt vandamál að efla starfsanda né það að snúa óánægju í starfi yfir í ánægju með uppbyggilegum hætti.
Eyþór segir að vinnustaðir geri sér grein fyrir þessu og að vaxandi áhugi sé á að hlúa að góðum starfsanda og viðhalda starfsánægju starfsfólks. Hann segir fjölmarga vinnustaði láta sér annt um þessi mál og gera margt til að fólk sé ánægt í starfi og á vinnustaðnum.

Ánægt starfsfólk afkastar meiru
Niðurstöður kannana um ánægju starfsfólks og afkastagetu eru flestar á einn veg að mati Eyþórs. „Fólk sem er ánægt og finnur sig á vinnustaðnum er líklegra til að leggja meira til málanna en þeir sem eru óánægðir. Ánægt fólk er líklegra til að vera meira skapandi, koma með tillögur og leggja meira á sig fyrir samstarfsmenn og vinnustaði“ segir Eyþór. Hann segir að fjölmargt geti haft áhrif á ánægju fólks í starfi. „Það er mjög mikilvægt að fólk upplifi að það hafi tök á sínu starfi, viti að það sé að standa sig t.d. í gegnum hrós, upplifi að það sé hluti af vinnustaðarhópnum og skipti máli. Einnig að fólk upplifi að það sé að vaxa í starfi og sinna einhverju sem skiptir það máli. Maður er manns gaman og það sýnir sig aftur og aftur að hver og einn skiptir máli.“

Þegar starfsfólk missir trúna
„Það gerist stundum að fólk missir trúna á vinnustaðinn eða á stjórnendum og nær ekki að vinna með það öðruvísi en að vera stöðugt að úttala sig um það við alla alls staðar. Slíkt hefur neikvæð áhrif á starfsandann og skapar leiðindi á vinnustaðnum“ segir Eyþór.
Aðspurður um hvað starfsfólk og vinnustaðurinn geti gert til að endurvekja trúna og samstarfið segir Eyþór að „hver og einn beri ábyrgð á sinni ánægju og þar hefst þetta. Því til viðbótar bera stjórnendur ábyrgð á því að það sem snýr að vinnustaðnum sé í lagi. Samstarfsfólk verður að bera ábyrgð á því sem það segir og gerir. Góðir samstarfsmenn leggja sitt af mörkum til að bæta vinnustaðinn og skapa góðan starfsanda. Það er ómetanlegt.”


Viðtal Ragnars Sigurðssonar við Eyþór Eðvarðsson, stytt og birt í Starfsmannapósti HSA.
Birtist fyrst í Ársriti SFF 2013.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is