LOGO HSA nytt

Upplýsingar til sjúklinga

Sjúklingaráðin 10

Við komu á legudeild
Hjúkrunarfræðingur tekur á móti sjúklingi við komu á deildina. Venjulega er sjúklingurinn skoðaður á fyrsta degi og heilsufarssaga hans skráð. Hvort sem sjúklingurinn dvelur um lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsinu verður ekki hjá þvi komist að ýmsar persónulegar venjur hans breytist. Læknismeðferð, hjúkrun og tillit til stofufélaga krefst þess að vissar reglur séu virtar. Sé reglum og leiðbeiningum starfsfólksins fylgt, léttir sjúklingur undir með því og stuðlar að bata sínum.

Klæðnaður
Æskilegt er að sjúklingur hafir meðferðis slopp, inniskó og snyrtiáhöld. Sjúkrahúsið leggur til nærföt, en sjúklingar geta klæðst sínum eigin fötum ef þeir óska.

Lyf
Sjúklingur er beðinn um að afhenda hjúkrunarfólki þau lyf sem hann kann að hafa við komuna á sjúkrahúsið og verða þau geymd þar til hann útskrifast. Á meðan sjúklingur dvelur á sjúkrahúsinu tekur hann einungis þau lyf sem læknar þess ákveða.

Börn
Þegar börn leggjast inn á sjúkrahúsið er æskilegt að foreldrar séu hjá þeim og veiti þeim öryggi og stuðning.

Stofugangur
Stofugangur lækna og hjúkrunarfræðinga er á morgnana. Ætlast er til að sjúklingar séu inni á sjúkrastofunum á stofugangstímum.

Matur
Sjúklingar geta valið um vissar fæðutegundir í morgunverð í samráði við hjúkrunarfræðing. Ef sjúklingur er óánægður með einstök atriði máltíða, t.d. ekki nægilegur matur, er hann hvattur til að ræða það við hjúkrunarfræðing. Reynt er að verða við óskum eins og kostur er. Ætlast er til að þeir sem geta borði hádegis- og kvöldverð í borðstofu sjúklinga.

Matmálstímar
Morgunverður er frá kl. 8:45
Hádegisverður er kl. 11:30
Miðdegiskaffi er kl. 14:30
Kvöldverður er kl. 17 :30

Reykingar eru ekki leyfðar
Reykingar eru hvorki leyfðar á deildum né á lóð stofnunar. Öllum reykjandi sjúklingum er boðið upp á ráðgjöf, stuðning og heilbrigðisfræðslu samhliða nikótínlyfjameðferð þeim að kostnaðarlausu á meðan þeir dvelja á sjúkrahúsinu.

Við útskrift
Við heimferð fær sjúklingur upplýsingar um niðurstöðu sjúkrahúslegu, fyrirmæli um lyf eftir útskrift, endurkomu til læknis og hugsanlegar frekari rannsóknir. Sjúklingur ætti að frá skýr fyrirmæli frá lækni um hvenær hann megi hefja störf að nýju.

Þagnarskylda
Starfsfólk sjúkrahússins er bundið þagnarskyldu um öll málefni sjúklinga. Viljum við vinsamlega biðja sjúklinga og aðstandendur um að ræða ekki það sem þeir kunna að verða vitni að eða heyra um aðra sjúklinga innan veggja sjúkrahússins.

Geymsla fjármuna
Athygli skal vakin á að sjúkrahúsið tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum sjúklinga nema verðmætum sem geymd eru í læstum hirslum á deildinni.

Fjölmiðlar
Útvarp er við hvert rúm, en því miður eru hlustunarskilyrði oft léleg og þess vegna æskilegt að hafa með sér lítið útvarpstæki. Sjónvarp er í setustofu; einnig á deildin sjónvörp til afnota fyrir þá sem ekki geta komið í setustofuna. Dagblöð eru lögð fram í setustofu um leið og þau berast.

Símaafnot
Sjúklingar hafa aðgang að símasjálfsala og geta keypt símakort hjá vakthafandi hjúkrunarfræðingi. Einnig geta sjúklingar látið hringja í sig í þráðlausan sjúklingasíma 470 1463.

Prestsþjónusta
Sóknarprestur í Neskaupstað kemur vikulega í heimsóknir til sjúklinga, einnig eru prestarnir úr nágrannabyggðum reiðubúnir að sinna þeim sem þess óska. Messur og helgistundir eru öðru hverju og þá auglýstar sérstaklega.

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is