LOGO HSA nytt

Meðganga og fæðing

nyfaedd1Hjá HSA starfa sjö ljósmæður sem sinna mæðravernd, fræðslu, nálastungum, fæðingum, sængurlegu og heimaþjónustu á Austurlandi.
Við byrjun meðgöngu er hægt að fá símatíma við ljósmóður sem fer yfir atriði svo sem mataræði á meðgöngu og fósturskimanir. Ljósmóðir getur vísað konum sem þurfa sónar áfram.

Pregnancy and birth

Pöntun tíma/símatíma í mæðravernd

Sónarskoðanir
Sónarskoðanir eru framkvæmdar í Neskaupstað, á Egilsstöðum og Seyðisfirði.
Athugið að beiðni þarf frá heimilislækni eða ljósmóður til að fara í sónarskoðanir.

Fæðingardeild - ljósmæður
Fæðingardeild HSA er á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað. Þar starfa að jafnaði fjórar ljósmæður sem sinna innlögnum vegna vandamála á meðgöngu, fæðingahjálp, sængurlegu og aðstoð við brjóstagjafavandamál s.s. stíflur, sýkingar o.fl.

Þurfir þú nauðsynlega að komast í samband við ljósmóður skaltu á dagvinnutíma hafa samband við 470-1450 og óska eftir símtali. Ef um bráð veikindi tengd meðgöngu er að ræða skaltu hafa samband við vaktsíma ljósmæðra 860-6841.

Ef upp koma vandamál í barneignarferlinu er haft samráð og samstarf við fæðingarlækna á Sjúkrahúsi Akureyrar, áhættumæðravernd Landspítala og barnalækna vökudeildar Landspítala. Öryggi móður og barns er ávallt í fyrirrúmi.

Frá ljósmæðrum
Við bjóðum allar hraustar konur sem eiga að baki eðlilega meðgöngu velkomnar til fæðingar hjá okkur. Við bjóðum upp á fjölbreyttar meðferðir til verkjastillingar í fæðingu, s.s. bað, nálastungur, glaðloft og mænurótardeyfingu. Ef vandamál koma upp í fæðingu er hægt að ljúka fæðingunni með sogklukku eða keisaraskurði.

Við bjóðum fólk velkomið í heimsókn til að skoða fæðingadeildina og kynna sér aðstöðuna þar. Í byrjun árs 2017 var deildin endurnýjuð og bað hefur verið tekið í notkun á nýrri fæðingastofu. Á deildinni eru tvær sængurlegustofur og er lögð áhersla á að fjölskyldan sé á einbýli. Önnur stofan hefur verið endurnýjuð og er hún búin hjónarúmi en hin er með rafmagnsrúm fyrir mæður sem þurfa á því að halda, svo sem eftir keisaraskurð. Í sængurlegunni er lögð áhersla á sólarhringssamveru barnsins við báða foreldra og því er mökum boðið að gista gegn vægu gjaldi ef húsrúm leyfir.
Ljósmæður deildarinnar leggja áherslu á að hlúa að fjölskyldunni í öllu barneignarferlinu sem næst heimabyggð, frá fyrstu vikum meðgöngunnar þar til fæðing er yfirstaðin.
Heimsóknartímar eru fyrst og fremst í samráði við hina nýbökuðu foreldra. Mikilvægt er að fjölskyldan fái næði með nýjum einstaklingi og einnig til að hvíla sig.
Ef fjölskyldan þarf að ferðast um lengri veg og jafnvel bíða fæðingar í Neskaupstað, er reynt eftir megni að aðstoða fólk við að finna íbúð gegn vægu gjaldi.

Gagnlegar upplýsingar
Embætti landlæknis: Meðganga og ungbörn
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins: Fræðsla
Heilsuvera.is: Meðganga og fæðing

Ung- og smábarnavernd

Hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum HSA sinna ung- og smábarnavernd.
Hjúkrunarfræðingur hefur samband við fjölskylduna þegar fæðingartilkynning berst heilsugæslustöð en æskilegt er að foreldrar hafi samband strax við heimkomu barnsins og láti vita af sér.
Fyrstu vikur eftir heimkomu barnsins kemur ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í vitjanir heim í samráði við foreldra til að fylgjast með þroska barns og líðan fjölskyldu.

Gagnlegar upplýsingar:
Embætti landlæknis: Meðganga og ungbörn
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins: Fræðsla
Heilsuvera.is: Fróðleikur um börn og uppeldi

Fastar skoðanir og bólusetningar
Í hverri skoðun er næsti tími gefinn. Innkallað er í 2 1/2 árs og 4 ára skoðanir – þá fá börn og foreldrar bréf með góðum fyrirvara þar sem tíma er úthlutað og gerð grein fyrir því hvað gert er í skoðuninni.

Lesa meira

Heilbrigðisstofnun Austurlands - kt. 610199-2839 - sími 4701400 - info@hsa.is