Alþjóðlegur dagur lífeindafræðinga er þann 15. apríl. Við HSA starfa þrír lífeindafræðingar: Steinunn Þórhallsdóttir á Egilsstöðum og Steinunn H Ingimarsdóttir og Avijaja Tryggvadóttir í Neskaupstað. Hér við stofnunina eru störf okkar lífeindafræðinga fjölbreyttari en víða annars staðar, enginn dagur er eins. Hér sinna færri hendur flestum þeim verkum sem þörf er á hér og við mælum flest þau sýni sem tekin eru á FSN og heilsugæslustöðvum HSA. Við tökum sýni, framkvæmum mælingar, sinnum blóðbankastöð og rannsóknum á sviði sýklafræði ásamt því að undirbúa og senda sýni í framhaldsrannsóknir á aðrar rannsóknarstofur. Hér er mjög gott að vinna og njótum við þess að starfa í nánu samstarfi við aðrar stéttir á stofnuninni.
Margir átta sig ekki á hvaða hlutverki lífeindafræðingar gegna því við störfum að miklu leiti á bak við tjöldin. Sjúklingurinn hittir lífeindafræðinginn yfirleitt ekki nema rétt á meðan blóðprufan er tekin. Á rannsóknarstofunni vinnum við viðhald og gæðaeftirlit á mælitækjum. Við tryggjum að tækin okkar mæli ávallt rétt og að niðurstöðurnar séu áræðanlegar og staðlaðar. Við berum ábyrgð á þeim rannsóknum sem við framkvæmum og að niðurstöðunum séu réttar.
Lífeindafræði er kennd við Háskóla Íslands og til að öðlast starfsréttinda þarf að ljúka fjagra ára námi. Að loknu námi er möguleiki á framhaldsnámi á M.S. stigi og þareftir er möguleiki á doktorsnámi. Námið er fjölbreytt og áhersla er lögð á að kenna nákvæm og skipulögð vinnubrögð og gefur námið óteljandi möguleiga.
Lífeindafræðingar starfa með lífeindir, þ.e.a.s. við söfnun, meðhöndlum og mælingar á sýnum allt niður í minnstu einingar til að varpa ljósi á heilsu einstaklinga og þróun sjúkdóma. Flestir lífeindafræðingar starfa á rannsóknarstofum sjúkrahúsa við fög á borð við blóðmeinafræði, sýklafræði, veirufræði, blóðbankafræði, lífeðlisfræði, líffærameinafræði, meinefnafræði og ónæmisfræði. Fyrir utan sjúkrahúsin starfa lífeindafræðingar í fyrirtækjum í erfðgreiningum, lyfjaiðnaði, gæðaeftirliti eða við aðra rannsóknarvinnu. Lífeindafræðingar geta vissulega starfað alls staðar þar sem þörf er á víðtækri þekkingu á sviði rannsókna.
Slagorð Alþjóðasamtaka lífeindræðinga IFBLS fyrir dag lífeindafræðinga er Testing Times - Biomedical Laboratory Scientists' Role in the Covid-19 Pandemic. Lífeindafræðingar gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn kórónuveirunni og hafa lífeindafræðingar einir staðið að greiningum á Covid sýnum á LSH. Lífeindafræðingar um heim allan verðskulda að fá að stíga fram fyrir tjöldin, að framlag okkar verði sýnilegra og að við njótum verðskuldaðrar viðurkenningar fyrir störf okkar.